„Í bankastarfsemi eru að verða miklar breytingar á heimsvísu. Bankakerfi heimsins lenti í miklum hremmingum og í kjölfar slíks verða oft miklar breytingar. Menn fara í naflaskoðun. Ég held að þetta hafi meðal annars ýtt við mönnum tæknilega. Það þarf að hagræða á kostnaðarhliðinni og þá setja menn meiri þunga á tæknilausnir," segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

„Við þurfum að geta unnið betur saman, með því að samnýta ákveðna fleti í starfseminni sem eru ekki í samkeppni, eins og til dæmis upplýsingatækni og á fleiri sviðum. Við þurfum að muna að við erum ofboðslega lítil hérna. Það eru gríðarlega mikil tækifæri til hagsbóta fyrir viðskiptavini að þessi fyrirtæki geti unnið meira saman," bætir hann við.

Samkeppnisyfirvöld of stíf á ÍSlandi

Finnst þér það hafa mætt litlum skilningi hjá samkeppnisyfirvöldum til dæmis?

„Já, það er mjög erfið nálgun sem þau hafa tekið hér, borið saman við sambærileg stjórnvöld í þessum nágrannalöndum sem við erum alltaf að bera okkur saman við. Það er eitthvað sem við höfum áhuga á að ná betri tökum á og eru mikil tækifæri í, allt til hagsbóta fyrir viðskiptavinina, því þannig má lækka kostnað. Stærðarhagkvæmni skiptir miklu í fjármálastarfsemi og þeim mun meira eftir því sem regluverkið verður flóknara.“

Eru að keppa við risa

„Ég vill hnykkja á því að keppinautar okkar, til dæmis Nordea bankann, eru hundrað sinnum stærri en Arion banki. Það er stærsti bankinn á Skandinavíu, þannig að það er allt öðruvísi að reka okkar banka, borið saman við þannig banka. Nordea er reyndar ekki sérstaklega stór á alþjóðlegan mælikvarða.“

Höskuldur Ólafsson er í viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .