Fjármálastjórarstærstu fyrirtækja landsins eru svartsýnni en áður á framtíðarstöðu fyrirtækja þeirra ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar Deloitte. Fleiri þátttakendur í könnuninni búast við að EBITDA þeirra fyrirtækis lækki en hækki á næstu 12 mánuðum. Þetta er í fyrsta sinn sem fleiri fjármálastjórar búast við lækkun EBITDA en hækkun frá því að könnun var fyrst gerð vorið 2014.

Könnunin var send út á fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins í nóvember. Niðurstöðurnar benda til töluverðrar viðhorfsbreytingar frá síðustu könnun frá því í vor, en þá bjuggust 62% fjármálastjóra við að EBITDA þeirra fyrirtækis myndi hækka en 20% lækka. Hlutfall þeirra sem búast við tekjusamdrætti hækkar nokkuð eða úr 11% í 25% á milli kannana og hlutur þeirra sem búast við tekjuaukningu lækkar úr 73% í 56%.

Fleiri fjármálastjórar telja vaxtatækifæri fyrirtækis síns lakari en fyrir 6 mánuðum eða 22% til samanburðar við 8% í vor.

Lækkun kostnaðar og niðurgreiðsla skulda

Þá nefna um tveir af hverjum þremur fjármálastjórum að þeirra fyrirtæki muni leggja áherslu á að lækka kostnað næstu 12 mánuði líkt og raunin hefur verið í könnunum síðustu tvö ár.

Flestir eða 80% leggja áherslu á að halda skuldsetningu óbreyttri eða draga úr henni á næstu 12 mánuðum. 42% segja að þeirra fyrirtæki hyggist stækka með innri vexti, 35% að kynna eigi nýjar vörur eða fara eigi inn á nýja markaði og 27% hyggjast minnka skuldsetningu og jafn stór hluti auka sjóðsstreymi. Færri stefna á fjárfestingar eða um 55% miðað við 77% í könnuninni í síðustu könnun. Flestir stefna á fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum, eða 47%, 4% á kaup á fyrirtækjum eða rekstrareiningum og 4% á aðrar fjárfestingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .