Tekjufall listageirans vegna faraldursins er meira en ferðageirans, samkvæmt skýrslu endurskoðenda- og ráðgjafarfyrirtækisins EY um stöðu skapandi greina og áhrif faraldursins á þær.

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF, segir skýrsluna sýna mjög glöggt hversu djúpstæð áhrif faraldursins hafa verið á listageirann, en meðal þess sem þar kemur fram er að tekjufall listageirans er meira en ferðageirans. „Þetta sýnir bara svart á hvítu hversu nauðsynlegt er að nú þegar ástandið er aðeins að lagast, verði reynt að hafa þessa atvinnugrein í huga og hjálpa fyrirtækjum í tónlistariðnaði af stað aftur.“

Sérstaklega megi nefna minni tónleikastaði, sem hafi orðið svolítið útundan í mótvægisaðgerðum yfirvalda. „Það er oftast litið á þá einfaldlega sem bari, krár eða slíkt. Þeir þjóna hins vegar mikilvægum tilgangi fyrir stóran hóp tónlistarfólks sem hefur vænan hluta síns lífsviðurværis af því að halda þar tónleika.“

Tónleikar á Gauknum svara ekki kostnaði
„Þótt núna megi koma saman í þessum tónleikasölum þá gera þær sóttvarnaráðstafanir sem nauðsynlegar eru – tveggja metra reglan og hámarksfjöldi gesta – það hreinlega að verkum að það svarar ekki kostnaði að opna þessa staði. Við sjáum það bara að þeir einu sem eru farnir eitthvað af stað eru Harpa, Sinfónían, leikhús og önnur menningarhús sem njóta opinberra styrkja og aðkomu. Það er enginn að halda tónleika á Gauknum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .