Þegar fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um tæplega fjórðung á tólf mánaða tímabili sem lauk í sumar veltu sumir upp þeirri spurningu hvort fasteignabóla væri að myndast.

„Hagfræðin hefur ákveðna mælikvarða sem hefur verið horft í á þessum markaði sem geta gefið vísbendingar um hvort það gæti verið að myndast bóla. Þá er markaðsstaðan borin saman við söguna. Þar er horft í hlutföll eins og fasteignaverð á móti launum, byggingarkostnaði og leiguverði. Síð­ an hefur þetta verið borið saman milli landa,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

„The Economist og OECD hafa reynt að greina hvar séu húsnæðisbólur í heiminum. Við höfum ekki verið á rauðu svæði á þeim mælikvörðum. Hér hefur samt undanfarið skilið á milli. Framan af í þessari uppsveiflu fylgdust laun og húsnæðisverð mjög vel að. Það fór hins vegar að skilja á milli fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo – en ekki þannig að það sé afgerandi bólumyndun,“ segir Ingólfur. Þegar horft er í skuldsetningarhlutföll heimila sést auk þess að þau eru betri en þau voru á árunum fyrir hrun.

„Þar eru því engar þannig viðvörunarbjöllur að hringja. Skuldsetningarhlutfall er líka mælikvarði á hversu vel heimilin eru í stakk búin til að taka á sig áfall ef það væri bólumyndun og við sæjum einhverja verðlækkun,“ segir Ingólfur, og bendir á að í sögulegu samhengi sé eiginfjárstaða fólks í íbúðarhúsnæði góð. „En það er greinilega að hægja á hækkun,“ segir Ingólfur.

Því sé rétt að setja þær verð­ breytingar á fasteignaverði sem urðu síðustu mánuði í samhengi við verðbreytingar undanfarin ár en ekki bara fyrri hluta síðastliðins árs. „Við sjáum þetta því kannski sem eðlilegra ástand en hitt, sem var mjög sérstakt,“ segir Ingólfur. Þá séu litlar líkur á mikilli lækkun húsnæðisverðs nema samhliða stóráföllum í hagkerfinu. „Það er spáð hægari hagvexti og þegar komnar fram vísbendingar um það. Samdrætti er hins vegar ekki spáð og engar sýnilegar vísbendingar um annað hrun hér framundan. Við þurfum skell til að sjá verulega verðlækkun á húsnæði. Sagan kennir okkur það og að þetta fylgist mjög mikið að og mikil lækkun væri því á skjön við efnahagsþróunina. Það getur auð­ vitað ýmislegt óvænt komið upp á en ekkert í kortunum bendir til þess,“ segir Ingólfur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .