*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Erlent 15. maí 2019 13:21

Þyrlur keppa við leigubíla

Ferðalangar eiga nú kost á því að ferðast með þyrlu frá Manhattan á flugvelli New York fyrir aðeins tæpar 24 þúsund krónur.

Ritstjórn

Í áraraðir hafa einungis auðkýfingar átt möguleika á því að ferðast með þyrlum frá Manhattan á flugvelli stórborgarinnar New York, á meðan almúginn hefur nýtt sér leigubíla eða aðrar almenningssamgöngur. Á þessu hefur þó orðið breyting og stendur almúganum nú til boða þyrluferðir á flugvelli borgarinnar á aðeins 195 dollara, sem nemur tæplega 24 þúsund íslenskum krónum. Hægt er að bóka umræddar þyrluferðir í gegnum snjallsíma. Bloomberg greinir frá þessu.

Rob Wiesenthal, stofnandi Blade Urban Air Mobility Inc., sem býður upp á fyrrgreindar þyrluferðir, segir að á árdögum félagsins árið 2014 hafi þyrluferð frá Manhattan á JFK alþjóðaflugvöllinn kostað þrjú þúsund dollara (tæplega 370 þúsund krónur). Honum hefur hins vegar tekist jafnt og þétt að lækka verðið, eftir að hafa fundið leiðir til að auka skilvirkni hvað varðar eldsneytisnotkun, búnað og tímaáætlun.

Ný skilvirk þyrlutegund frá þyrluframleiðandanum Bell Helicopter ku leika lykilhlutverk í því hversu lág verðlagningin er nú orðin.  

Stikkorð: New York þyrluflug