*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 14. febrúar 2019 12:55

Þyrlurnar á leiðinni til Akureyrar

Fjórar austurrískar þyrlur á ferð til landsins en þetta eru fyrstu þyrlurnar sem staðsettar verða að staðaldri fyrir norðan.

Ritstjórn
Fjórar þyrlur Heli-Austria sem Circle air mun starfrækja á Akureyri eru nú á leiðinni til landsins.
Aðsend mynd

Norðlenska félagið Circle air er að fá til sín fjórar þyrlur frá austurríska féalginu Heli-Austria til landsins að því er félagið segir á facebook síðu sinni. Verða þyrlurnar ætlaðar fyrir bæði þyrluskíðamennsku og útsýnisflug, sem Circle air hefur boðið upp á frá Akureyrarflugvelli.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í desember bjóst Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Circle Air við því að fá allt að sex þyrlur til landsins, yfir háannatímann sem er frá febrúar fram í júní, en jafnframt býst hann við að einhverjar verði áfram allt árið, þó það velti á eftirspurn.

„Það fer eftir fjölda flugstunda sem óskað er eftir hve margar þær verða þegar uppi er staðið. Það hefur verið mikill uppgangur í útsýnisferðum í Reykjavík með þyrlum en það hefur aldrei verið í boði fyrir norðan. Það hefur alltaf kostað ferjun á þyrlum norður til þess sem kaupandinn þarf að greiða fyrir,“ sagði Þorvaldur þá í samtali við Viðskiptablaðið í tilefni af samstarfsamningi félagsins við austurríska félagið.

„Þeir gera þetta sama í Austurríki, eru í fjallaskíðamennsku, útsýnisflugi auk þess að vera stórir aðilar í neyðarþjónustu. Þyrlur þeirra hafa mikla breidd, bæði búnað fyrir þyrluskíðamennskuna, neyðarflutninga og svo er hægt að nota þessar þyrlur í ýmis konar þungavinnu í verklegum framkvæmdum.“