„Ég hugsa að heildarfjöldi farþega hjá íslenskum þyrluþjónustum sé um 10 þúsund á ári og samanlögð velta um milljarður,“ segir Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs í viðtali við Morgunblaðið, en fyrirtæki hans rekur 4 þyrlur hér á landi.

Segir Birgir að íslenskar þyrluþjónustur reki 9 þyrlur í landinu, en alls eru skráðar 12 þyrlur í landinu, að meðtöldum þeim þrem sem eru í rekstri Landhelgisgæslunnar.

Óvissa framundan í þyrluþjónustu

„Við þetta bætast síðan leiguþyrlur sem ekki eru skráðar á íslandi en þetta engu að síður orðinn þónokkur fjöldi.“

Birgir segir óvissu fram undan í þyrluþjónustu á Íslandi, en mikill vöxtur hefur verið á undanförnum árum í þjónustunni.

Óhagstæð gengisþróun

„Gengisþróun hefur verið okkur óhagstæð en stærsti hluti okkar viðskiptavina eru erlendir ferðamenn og þegar gengið styrkist verða ferðirnar dýrari fyrir þá sem greiða í evrum og pundum.“

Óttast hann að hægja muni á þeim hraða vexti sem verið hefur í þjónustunni á undanförnum árum þó enn sé töluvert að gera, en gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um 10,3% á síðustu 9 mánuðum.

Fé í þyrluferðir sérstaklega eyrnarmerkt

„Ég vil ekki ganga svo langt og segja að það sé óvissutími framundan í þyrluþjónustu. Í það minnsta er enn töluvert um verkefni hjá okkur,“ segir Þórunn Sigurðardóttir, sölu- og markaðsstjóri Helo-þyrluþjónustunnar.

„Þrátt fyrir að flestir okkar viðskiptavinir séu erlendir ferðamenn, er eðli þessara ferða slíkt að þeir sem eru að sækja í þyrluflug um Ísland eru fólk sem hefur eyrnamerkt sérstaklega fé í slíkar ferðir.“

Pakkaferðir virka betur

Hafa þau mismunandi miklar áhyggjur af áhrifum gengisþróunar krónunnar, en þau eru bæði sammála um að fjölgun erlendra ferðamanna muni halda áfram að styrkja þyrluþjónustu hér á landi.

„Auðvitað hjálpaði það til að krónan var veik fyrstu árin eftir hrun en stór hluti af velgengni okkar og vexti á síðustu árum er því að þakka að við nálguðumst markaðinn með nýjum hætti,“ segir Birgir, en hann segir ævintýrið hafa byrjað upp úr 2009.

„Í stað þess að rukka viðskiptavini okkar eftir flugtíma fórum við að bjóða upp á ferðir á föstu verði eða svokallaðar pakkaferðir. Það er módel sem hefur sýnt sig að virkar mun betur en tímagjald.“