Þrotabú B230 ehf., sem áður hét Þyrluþjónustan hf., hefur höfðað skaðabótamál gegn fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna ákvörðunar Flugmálastjórnar Íslands. Fer fyrirtækið fram á 104 milljónir króna í skaðabætur. RÚV greinir frá þessu.

Þar kemur fram að málshöfðunin eigi rætur sínar að rekja til úrskurðar innanríkisráðuneytisins frá lok mars 2011 sem laut að því að Flugmálastjórn Íslands hefði með ólögmætum hætti stöðvað réttindi Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf. sem sinnti öllu viðhaldi á þyrlum félagsins.

Birgir Már Björnsson, lögmaður þrotabúsins, segir afstöðu þess vera að hin ólögmæta stöðvun Flugmálastjórnar hafi verið við líði frá árinu 2008 og haft þær afleiðingar að B230 ehf. hafi ekki notið heimilda til loftferða vegna tiltekinna loftfara sinna þar til í mars 2011 þegar innanríkisráðherra felldi ákvörðun Flugmálastjórnar úr gildi.

Fyrirtaka fór fram í málinu fyrir héraðsdómi í morgun og er það sem stendur í gagnaöflunarfresti. Aðalmeðferð hefur ekki verið ákveðin.