Marlene Margarete Wagner er framkvæmdastjóri sölumála hjá þýska stórfyrirtækinu SMS Siemag. Fyrirtækið hannar og framleiðir tæki og búnað, sem notaður verður í sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Auk þess ákvað þýska fyrirtækið að fjárfesta í verkefninu, sem er óvenjulegt að sögn Wagner.

Um 14 þúsund manns vinna hjá SMS Siemag, sem hefur aðallega þjónustað stáliðnaðinn en þó einnig ýmsan annan iðnað eins og álfyrirtæki og nú síðast sólarkísilverkmiðjuna á Grundartanga. Fyrirtækið er 145 ára gamalt og með höfuðstöðvar í Düsseldorf en starfsstöðvar víða um heim. Sala fyrirtækisins nam um  500 milljörðum króna árið 2014 og nettó eignir þess voru metnar á tæpa 140 milljarða.

„Ein af ástæðunum fyrir því að við tókum þetta verkefni að okkur fyrir Silicor Materials er að okkur þótti það spennandi," segir Wagner.í samtali við Viðskiptablaðið. „Við höfum aldrei framleitt búnað fyrir svona verksmiðju og því opnar þetta ákveðna möguleika fyrir okkur í framtíðinni, skapar ný tækifæri. Þó sólarsílikon sé allt önnur vara en stál þá er framleiðsluferlið í sjálfu sér ekki mjög ólíkt stálframleiðslu og að því leyti höfum við mikla þekkingu á því sem við erum að gera."

Heillandi verkefni

Wagner segir að verkefnið á Grundartanga sé mjög mikilvægt fyrir SMS Siemag því með því að ráðast í það sé fyrirtækið að auka mjög við þekkingu sína.

„Verksmiðjan á Grundartanga verður umhverfisvæn og við erum mjög meðvituð um þá áherslu sem lögð er græna tækni í dag. Vissulega hefur lækkun olíuverðs á síðustu árum haft nokkur áhrif á umhverfisvæna orkugjafa eins og sólarsellur en við teljum samt að þegar í fram í sækir liggi framtíðin í grænum orkugjöfum. Þess vegna er þetta verkefni mjög heillandi fyrir okkur og það gæti opnað dyr fyrir okkur inn í þennan umhverfisvæna iðnað."

Auk þess að semja við Silicor Materials um að útvega öll tæki og búnað í verksmiðjuna á Grundartanga þá ákvað SMS Siemag að fjárfesta í verksmiðjunni. Sú ákvörðun var tilkynnt síðasta haust þegar fyrri hluta fjármögnunar sólarkísilverksmiðjunnar lauk. Um var að ræða 14 milljarða króna hlutafjársöfnun. Sunnuvellir slhf., félag í eigu íslenskra lífeyrissjóða og fagfjárfesta, samþykkti þá að leggja 6 milljarða í verkefnið. Fjárfestingarsjóðurinn Hudson Clean Energy Partners, aðaleigandi Silicor, og þýska SMS Siemag, samþykktu að leggja samtals 8 milljarða króna í það.

Óvenjulegt að fjárfesta

Wagner segir mjög óvenjulegt fyrir SMS Siemag að fjárfesta í verksmiðjum.

„Venjulega gerum við þetta ekki því okkar viðskiptavinir líta slíkt hornauga og spyrja hvers vegna verið sé að fjárfesta í einni verksmiðju umfram aðra. Öðru máli gegnir um Silicor Materials því verksmiðja fyrirtækisins er sú fyrsta sem byggir á þessari grænu tækni og þar af leiðandi eigum við ekki í viðskiptum við neina samkeppnisaðila. Þess vegna ákváðum við að leggja fjármuni í Silicor Materials. Þetta er ekki há fjárhæð á okkar mælikvarða en sýnir samt að við viljum styðja við verkefnið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .