Þýska hagkerfið styrktist á þriðja ársfjórðungi en landsframleiðsla óx um 3,3% á ársgrundvelli samanborið við 2,6% á öðrum ársfjórðungi en þýska hagstofan birti tölur um hagvöxt í vikunni. Segja má að niðurstaðan sé þvert á væntingar en spár höfðu gert ráð fyrir 2,4% hagvexti. Þetta kemur fram á vef The Wall Street Journal.

Auk þess hækkaði þýska hagstofan áætlaðan hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi frá 2,9% upp í 3,6%.

Þýskaland hefur verið að drífa áfram efnahagsbata á evrusvæðinu undanfarin ár en skýr merki eru um að uppsveiflan á svæðinu sé að breikka og vöxtur þess að verða viðvarandi. Til dæmis um það má nefna að áætlanir geri ráð fyrir að hagvöxtur á Spáni verði meiri en 3% á þessu ári.

Þá hækkuðu efnahagsráðgjafar þýska ríkisins hagvaxtarspá sína fyrir upp um 0,6 prósentustig í síðustu viku. Frá 1,4% upp í 2% fyrir árið 2017. En haft er eftir ráðgjöfunum að þýska hagkerfið sé í mikilli uppsveiflu.