Ríkisstjórn Þýskalands og þýskir bílaframleiðendur eru sammála að auka ívilnanir fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla til að hraða orkuskiptum í landinu. Ívilnanir rafbíla sem kosta allt að 40.000 evrum verða hækkaðar um helming í allt að 6000 evrur á bifreið í Þýskalandi.

Einnig á að auka ívilnanir fyrir tengiltvinnbíla og munu þær ívilnanir hækka úr 3.000 evrum í 4.500 evrur. Þjóðverjar eru nú í öðru sæti á eftir Norðmönnum þegar kemur að kaupum á umhverfisvænum bílum í Evrópu með sölu á tæplega 53.000 hreinum rafbílum á þessu ári. Þetta var samþykkt hjá ríkisstjórn Þýskalands í vikunni og munu breytingarnar taka gildi í þessum mánuði og standa til ársins 2025.

„Þótt við á Íslandi séum komin vel á veg í innleiðingu nýrra orkugjafa er mikilvægt að halda áfram á sömu braut og niðurfelling ívilnana til tengiltvinnbíla sé ekki tímabær í lok árs 2020,“ segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, en hér á landi hafa stjórnvöld boðað að fella niður ívilnanir fyrir sumar gerðir bíla sem notið hafa þeirra síðustu ára.