Reglur um ríkisstuðning innan Evrópusambandsins hafa verið liðkaðar verulega vegna heimsfaraldursins. Um 200 niðurgreiðslu- og björgunarpakkar, sem samanlagt eru meira en tvær billjónir evra, hafa verið samþykktir af ESB.

Almennt hefur ESB reynt að koma í veg fyrir að aðildarríki styrki innlend fyrirtæki óþarflega mikið til þess að halda jafnræði á innri markaði sambandsins. Yfirleitt tekur um hálft ár fyrir framkvæmdastjórn sambandsins að fara yfir áætlaðan ríkisstuðning. Frá því að kórónaveiran setti heimshagkerfið í hnút hafa beiðnir verið afgreiddar hraðar, í sumum tilvikum á innan við sólarhring og jafnvel yfir helgar.

Af öllum samþykktum ríkisstyrkjum innan ESB er um 47% frá Þýskalandi þrátt fyrir að verg landsframleiðsla þjóðarinnar nemi einungis um fjórðungi framleiðslu sambandsins en þetta kemur fram í frétt The Economist .

Margrethe Vestager, sem stýrir samkeppniseftirliti ESB, hefur sagt að liðkunin sé einungis tímabundin. Hún hefur einnig lagt áherslu á að fyrirtæki sem voru í slæmu standi fyrir faraldurinn verði ekki bjargað og að þau fyrirtæki sem fá aðstoð þurfi að greiða hana til baka.

Bresk stjórnvöld eru um þessar mundir skoða leiðir til þess að komast hjá reglum ESB um björgunarpakka til vaxtafyrirtækja, samkvæmt frétt Financial Times . Sum fyrirtæki í eigu framtakssjóða, sem eru mjög skuldsett, og vaxtarfyrirtæki eru rekin með tapi fyrir skatta. Þetta þýðir að þau falla ekki undir reglur ESB um ríkisaðstoð jafnvel þó slík fyrirtæki geta verið arðsöm á rekstrarstigi. Fulltrúar hagsmunahópa (e. lobbyist groups) hafa óskað eftir því að löggjafar í Brussel dragi úr skilyrðum ríkisstyrkja.