Þýski stjórnlagadómstóllinn staðfesti rétt í þessu að Þýskaland geti tekið þátt í 500 milljarða evra varanlegum neyðarsjóði ESB ríkjanna (e.European Stability Mechanism) auk þáttöku í fjárlagasáttmála Evrópusambandsins.

Dómstóllinn setur þó mörg skilyrði fyrir aðild landsins að sjóðnum og mun dómstóllinn endanlega kveða upp dóm sinn í desember. Það eru aðeins tæknileg atriði sem dómurinn á eftir að leysa úr, þannig að tilvist sjóðsins er tryggð af hálfu Þjóðverja.

Sjóðurinn tekur við af neyðarsjóði sem var settur tímabundið á til að aðstoða fjárhagslega verst stöddu evruríkin og nefndist EFSF (European Financial Stability Facility).

Sjóðurinn hefði vart orðið fugl né fiskur án aðildar Þýskalands, sem leggur fram lang stærsta framlagið í sjóðinn eða um 27,2%.

Þýska þingið samþykkti í júní með auknum meirihluta (2/3 atkvæða) að sjóðurinn yrði settur á stofn.