Lestarstjórar hjá þýska ríkisfyrirtækinu Deutsche Bahn hefja vikulangar verkfallsaðgerðir í dag. Fraktflutningar á vegum fyrirtækisins verða þannig stöðvaðir kl. 15 í dag og flutningar á farþegum kl. 02 næstu nótt. BBC News greinir frá málinu.

Þetta er í áttunda sinn á síðustu tíu mánuðum sem lestarstjórarnir leggja niður störf og virðist enn langt í að samningar náist. Krefjast þeir þess að laun þeirra verði hækkuð um 5% og vinnuvikan stytt úr 39 vinnustundum í 37 stundir.

„Þessar verkfallsaðgerðir eru algjörlega úr hófi fram og óviðeigandi,“ segir í tilkynningu frá Deutsche Bahn um aðgerðirnar. Segir fyrirtækið að GDL, verkalýðsfélag lestarstjóra, sé með verkfallinu að valda lestarfarþegum stórkostlegu tjóni, Deutsche Bahn og starfsfólki þess, sem og þýskum efnahag.

Deutsche Bahn er alfarið í eigu þýska ríkisins og hefur yfir 300 þúsund starfsmenn í vinnu, en þar af eru 196 þúsund staðsettir í Þýskalandi. Fyrirtækið flytur um 5,5 milljónir farþega í Þýskalandi á degi hverjum.