Þýska fjárfestingarfélagið Mayfair hefur keypt 14,9% hlut í Marorku. Það er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem selur hlutinn.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýsköpunarsjóðnum að hann hafi fjárfest í Marorku fyrir átta árum og fjármagnað með því fyrstu skref fyrirtækisins á alþjóðamarkað.

Þá er haft eftir Helgu Valfells, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðsins, að þetta hafi verið ein arðbærasta fjárfesting hans frá upphafi.

Samkvæmt ársreikningi Nýsköpunarsjóðsins átti þýska fjárfestingarfélagið fyrir 15,4% hlut í Marorku.

Marorka var stofnuð af Jóni Ágústi Þorsteinssyni og VSÓ ráðgjöf árið 2002 til þess að þróa hugbúnað og stjórnkerfi sem hámarka orkunýtingu skipa. Kerfi Marorku hefur nú verið sett upp í skipum um víða veröld. Fimmtíu manns vinna hjá hjá fyrirtækinu.