*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Fólk 12. febrúar 2018 09:09

Þýskur sérfræðingur til liðs við Fossa

Olaf Rogge, sérfræðingur í alþjóðlegum fjárfestingum gengur til liðs við ráðgjafanefnd Fossa markaði.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Olaf Rogge, sérfræðingur í alþjóðlegum fjárfestingum, gengur til liðs við ráðgjafarnefnd Fossa markaða og mun styðja félagið í tengslum við vaxandi þjónustu þess á erlendum mörkuðum.

„Það gleður okkur mjög að Olaf gangi til liðs við okkur, en liðsinni hans styrkir áframhaldandi vöxt og uppbyggingu á þjónustu Fossa á alþjóðavísu,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

„Rogge býr að áratugareynslu af fjárfestingum á heimsmörkuðum og nýtur mikillar virðingar fyrir skilning sinn á þróun og samhengi efnahagsstærða á alþjóðlegum mörkuðum.“ 

Seldi fyrirtæki með 60 milljarða í stýringu

Frá 1984 byggði Rogge upp fyrirtækið sem hann stofnaði undir eigin nafni, Rogge Global Partners Ltd. Félagið sérhæfði sig í stýringu fjárfestinga á alþjóðlegum vaxtamörkuðum og var með yfir 60 milljarða Bandaríkjadala í stýringu áður en kom að sölu þess til Allianz Global Investors árið 2016.

Áður hafði hann gegnt margvíslegum stjórnunarstöðum hjá svissneska bankanum Lombard Odier og hjá LF Rothschild, Unterberg, Towbin. Olaf Rogge, sem er fæddur 1945, útskrifaðist með réttindi sem bankastjórnandi úr háskólanum í Hamborg í Þýskalandi árið 1973.

Ráðgjafi við gerð Wall Street myndar

Grein um Olaf Rogge í Financial Times, sem hefur yfirskriftina maðurinn sem ætti að vera kosinn konungur fyrir eitthvað, segir hann hafa verið ráðgjafa við gerð framhaldsmyndarinnar Wall Street: Money Never Slept, framhaldsmyndar frá árinu 2010 á samnefndri mynd um fjármálamanninn Gordon Gekko.

Í greininni er hann sagður hafa sérhæft sig í skuldabréfaviðskiptum, sérstaklega ríkisskuldabréfum. Hann er sagður hafa lært af því að kaupa skuldabréf Xerox, sem hann tapaði á strax daginn eftir, þannig að fyrirtæki hans hafi byggt upp greiningartæki sem hafi leitt til þess að þeir hafi selt sig út úr Enron, WorldCom, Ford, Northern Rock og Lehman Brothers áður en þau fyrirtæki fóru illa.