Forsvarsmenn flugfélagsins WOW air búast við því að geta skýrt stöðu félagsins í vikulok en vinna félagsins við skuldabréfaútboðið er í fullum gangi. Þetta kemur fram á vef Vísis .

Skúli Mogenssen sagði í síðustu viku í samtali við Bloomberg að skuldabréfaútboði fyrirtækisins myndi ljúka öðrum hvorum megin við helgina. En sem komið er hafa þó engar fréttir borist af útboðinu.

Skúli sagði jafnframt í samtali við Bloomberg að útboðinu hafa verið vel tekið í Skandinavíu og London, og að fyrirséð sé að lágmarksmarkmið þess, 50 milljónir dollara, um 5,5 milljarðar króna, muni nást. „Þetta er ekki í höfn, en við erum á lokametrunum,“ er haft eftir Skúla.

Samkvæmt skilmálum skuldabréfaútboðsins stefnir félagið á að gefa út skuldabréf fyrir allt að 100 milljónir evra, jafnvirði 13 milljörðum króna. Þegar skuldabréfaútboðið var kynnt um miðjan ágúst hugðist WOW air sækja sér 6 til 12 milljarða króna. Átti það að duga til að brúa reksturinn næstu átján mánuði en þá stefnir félagið að skráningu á markað. Skilmálar í útboðinu hafa breyst frá því það var fyrst kynnt. Nú fá fjárfestar, sem taka þátt í úboðinu, kauprétt að hlutafé þegar það verður skráð. Fá fjárfestarnir 20 til 25% afslátt af skráningargenginu.