Velta með hlutabréf í Kauphöllinni nemur 20 milljörðum króna frá áramótum. Þetta er tífalt meiri velta en á sama tíma í fyrra þegar hún nam tveimur milljörðum króna. Veltan hefur að meðaltali numið rúmum 4,1 milljarði króna á dag frá áramótum. Til samanburðar nam meðalveltan á degi hverjum á öllu síðasta ári 352 milljónum króna.

Greining Íslandsbanka fjallar um hlutabréfamarkaðinn í Morgunkorni sínu í dag. Þar segir m.a. að líklega skýrist aukin umsvif á markaðnum af auknu framboði hlutabréfa í kjölfar nýskráningar Eimskipa og Vodafone í lok síðasta árs auk vaxandi áhuga bæði almennra fjárfesta og fjárfestingasjóða á hlutabréfum. Því til viðbótar telur deildin að inn í spili mikil umframeftirspurn eftir hlutabréfum.

„Mat okkar er að fjögur félög muni bætast við markaðinn á þessu ári og þar horfum við aðallega til fasteignafélagsins Reita, TM, N1 og Advania. Auk þess hefur verið rætt um tvö önnur félög í almennri umræðu um mögulega nýliðum á markaði sem eru Sjóvá og Vís en við teljum mikla óvissu vera um skráningu þeirra á hlutabréfamarkað.“