Velta hugbúnaðarfyrirtækisins Meniga tífaldaðist í fyrra í samanburði við árið 2011 og nam 379,5 milljónum króna. Árið 2011 nam velta fyrirtækisins 38,8 milljónum. Hagnaður fyrirtækisins nam alls 89,2 milljónum króna í fyrra, en árið áður var 66,2 milljóna króna tap á rekstrinum.

„Síðasta ár var árið sem við uxum upp úr því að vera sprotafyrirtæki,“ segir Georg Lúðvíksson forstjóri Meniga. „Við teljum okkur vera í dauðafæri að verða næsta CCP, Marel eða Össur. Tölurnar eru eitt, en hitt skiptir ekki minna máli að við erum markaðsleiðandi í Evrópu á okkar sviði. Til marks um það má nefna að viðskiptavinir okkar þegar kemur að heimilisfjármálahugbúnaði eru átta talsins í Evrópu á meðan helstu keppinautar okkar eru með tvo eða þrjá viðskiptavini.“

Georg segir að vöxturinn hafi verið góður. „Við vorum okkur til gamans að skoða gamla viðskiptaáætlun frá fyrstu dögum fyrirtækisins og hún hefur staðist merkilega vel þrátt fyrir að hafa verið mjög metnaðargjörn. Í þessum geira verður að keyra áfram af krafti. Við ætlum að halda áfram á sömu línu og gerum ráð fyrir því að veltan muni tvöfaldast á þessu ári. Það er eiginlega alveg öruggt, því samningar sem þegar er búið að gera munu tryggja okkur þessar tekjur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.