Flutningsmiðlunarfyrirtækið TVG-Zimsen fagnar 20 ára afmæli sínu í ár, en fyrirtækið varð til við samruna Tollvörugeymslunnar hf. og Skipaafgreiðslu Jes Zimsen hf. árið 1996. TVG-Zimsen er dótturfyrirtæki Eimskips en rætur fyrirtækisins liggja hins vegar allt til ársins 1894 er Jes Zimsen stórkaupmaður hóf rekstur umfangsmikils verslunarfyrirtækis í Reykjavík. Jes Zimsen var mikill frumkvöðull í íslenskri verslun. Skipaafgreiðslan var fyrsta fyrirtækið sem bauð upp á alhliða vörusendingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, hvort sem um var að ræða flutning með sjó, landi eða í lofti.

Tollvörugeymslan var stofnuð 1962 og tók til starfa árið 1964; Markmið fyrirtækisins var geymsla á ótollafgreiddum vörum. Fyrsti stjórnarformaður félagsins var Albert Guðmundsson, knattspyrnugoðsögn og ráðherra, og gegndi hann formennsku til ársins 1989. Með Tollvörugeymslunni jókst frjálsræði í innflutningi, en innflytjendur höfðu aðgang að vörulager hérlendis sem var yfirleitt í eigu erlends seljanda. Vörur voru svo tollafgreiddar eftir þörfum notenda þannig innflytjendur komust hjá því að binda mikið fjármagn í vörubirgðum.

Eftir að tollalög tóku miklum breytingum árið 1987 breyttust forsendurnar fyrir rekstri Tollvörugeymslunnar og fyrirtækið fór að finna nýjar leiðir til að veita innflytjendum alla þjónustu á einum stað. Tæpum tíu árum síðar varð síðan til sameinað fyrirtæki TVG-Zimsen, en Björn Einarsson hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá árinu 2006. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið gengið í gegnum mikinn vöxt og nú starfa þar um 55 manns. Björn telur enn vera mörg tækifæri framundan.

Geturðu sagt mér frá starfsemi fyrirtækisins?

„TVG-Zimsen er hefðbundin flutningsmiðlun, en flutningageirinn skiptist niður í nokkra flokka. Þú ert með flutningsaðila á borð við skipafélögin og flugfélögin, hraðsendingarfyrirtækin sem eru í smærri pökkum og síðan flutningsmiðlanir eins og TVG-Zimsen. Flutningsmiðlanirnar nýta sér þjónustu aðila á borð við skipafélög og flugfélög og sem flutningsmiðlun byggjum við allt okkar á því að finna heildarlausnir, svokallaðar „door to door“ lausnir sem byggjast á flugfrakt, sjófrakt, tollafgreiðslu, hýsingu og afhendingu, þar sem við búum í raun til keðju fyrir okkar viðskiptavini.

Okkar kúnnar eru miðlungs- og smærri fyrirtæki. Það er mikil breidd í okkar viðskiptamannagrunni, bæði eru fyrirtækin ólík og enginn einn viðskiptavinur langstærstur. Við rekum okkar hugmyndafræði áfram á mjög háu þjónustustigi gagnvart viðskiptavinum okkar og mikilli liðsheild meðal starfsmanna sem svo tryggir bestu flutningalausnirnar og hátt þjónustustig. Við viljum vera nálægt viðskiptavini okkar og alltaf til staðar, með þeim hætti að hann viti að við erum þétt við bakið á honum. Jafnframt erum við mjög stolt af sögu fyrirtækisins og þeim grunni sem fyrirtækið stendur á.“

Veltan rúmlega tífaldast á tíu árum

Það hefur verið talsverður vöxtur hjá ykkur undanfarið. Hvaðan hefur hann komið?

„TVG Zimsen hefur vaxið mjög mikið undanfarin tíu ár. Nú, þegar við erum að fagna 20 ára afmæli fyrirtækisins, hefur vöxturinn farið úr um 200-300 milljónum árið 2006 í hátt í þrjá og hálfan milljarð 2016, fyrst og fremst í gegnum innri vöxt. TVG-Zimsen er í dag leiðandi í flutningsmiðlun. Við erum að búa til sterkar lausnir fyrir þennan hefðbundna flutningsmiðlunarmarkað og við mörkuðum þá stefnu í upphafi að vera mjög nálægt okkar viðskiptavinum. Þá höfum við líka breikkað fyrirtækið mjög mikið, bæði hvað varðar okkar kjarnamarkað sem er þessi „door-todoor“ lausn hvort sem það er flugfrakt eða sjófrakt, tollafgreiðsla og afhending, en einnig mjög mikið í umboðsmennsku fyrir ólíkar tegundir skipa. TVG-Zimsen ásamt dótturfyrirtækinu Gáru tekur á móti hátt í 600 skipum á ári og það er alls kyns starfsemi í kringum það, m.a. verkefnið „Flavour of Iceland“ sem við rekum ásamt sterkum samstarfsaðilum og á að stuðla að aukinni vörusölu á íslenskum vörum í erlend skip. Við sjáum mikil tækifæri hvað þetta varðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .