Sr. Þorvaldur Víðisson hefur verið ráðinn biskupsritari úr hópi 30 umsækjenda, 15 karla og 15 kvenna. Var hann talinn best til þess fallinn að gegna starfinu og hefur hann störf með haustinu. Sr. Þorvaldur útskrifaðist frá Háskóla Íslands með kandídatspróf í guðfræði árið 2001.

Hann vígðist til prests árið 2002 og tók við prestsstarfi í Vestmannaeyjum það ár og starfaði þar til ársins 2006. Hann var síðan Miðborgarprestur á árunum 2006 til 2010 og síðan prestur í Neskirkju til apríl 2011. Frá apríl 2011 hefur hann gegnt sóknarprestsstöðu í Niðaróssbiskupsdæmi í Noregi.