*

laugardagur, 29. janúar 2022
Fólk 29. október 2021 10:49

Til Creditinfo eftir tíu ár hjá Arion

Vilhjálmur Þór Svansson hefur verið ráðinn forstöðumaður þjónustu- og lögfræðisviðs Creditinfo á Íslandi.

Ritstjórn
Óli Már

Vilhjálmur Þór Svansson hefur verið ráðinn forstöðumaður þjónustu- og lögfræðisviðs Creditinfo á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vilhjálmur kemur til félagsins frá Arion banka hvar hann hefur starfað í áratug.

Vilhjálmur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með réttindi héraðsdómslögmanns. Hann er með próf í verðbréfaviðskiptum og hefur lokið CIPP/E vottun sem er staðfesting á sérfræðiþekkingu á persónuverndarreglugerð. Hann hefur starfað með starfshópi Samtaka fjármálafyrirtækja vegna innleiðingar á frumvarpi til laga um upplýsingar um sjálfbærni hjá fjármálafyrirtækjum og átt sæti í faghóp Stjórnvísi um persónuvernd.

„Við bjóðum Vilhjálm Þór hjartanlega velkominn til starfa og fögnum því mjög að fá hann til liðs við okkur. Vilhjálmur býr yfir yfirgripsmikilli reynslu á sviði verkefnastjórnunar, lögfræðiráðgjafar og persónuverndar, reynslu sem mun nýtast Creditinfo vel,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo.