Slitastjórn Glitnis hefur ekki tekið ákvörðun um það hvernig eigi að greiða 154 milljarða króna forgangskröfur, að sögn Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar Glitnis. „Ekki er tekið á því í íslenskum gjaldþrotalögum í hvaða mynt eigi að greiða út kröfur að öðru leyti en því að breyta á kröfum í erlendri mynt í íslenskar krónur við lýsingu þeirra í þrotabúið. Þegar það hefur verið gert eru allar kröfur orðnar að krónukröfum. Þegar kemur að því að greiða út kröfurnar er hins vegar ekkert í gjaldþrotalögum sem segir af eða á um í hvaða mynt þær greiðslur eiga að fara fram.“

Steinunn segir að til greina komi að greiða út kröfur í íslenskum krónum í stað erlendrar myntar. „Það er hins vegar ekki víst að það falli öllum kröfuhöfum í geð, en þeir gætu þá farið í mál við þrotabú bankans vegna þess.“

Steinunn segir að Glitnir eigi töluvert af reiðufé í erlendri mynt í erlendum bönkum og geti notað það til að greiða forgangskröfur ef svo ber undir. „Þá verður að skoða það hvaða áhrif það hefði á íslenskt hagkerfi ef allar kröfur bankanna væru greiddar út í íslenskum krónum og allur þessi gjaldeyrir fluttur heim. Það er ekki gefið að það væri heppilegt fyrir íslenska hagkerfið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu blaðsins undrir liðnum tölublöð hér að ofan.