Fulltrúar lífeyrissjóðanna funduðu í gær ásamt stjórnvöldum um mögulega aðkomu þeirra að 110% leiðinni. „Lífeyrissjóðirnir eru í heild með svona u.þ.b. 15% af öllum lánum í fasteignum, við erum langminnstir,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður LS í samtali við Morgunblaðið, en hann bendir á að aftur á móti sé tiltölulega mikið um svokölluð lánsveðslán hjá nokkrum lífeyrissjóðum en þau séu oft tryggð með fyrsta veðrétti í lánsveði og oft í góðum skilum.

Arnar segir lífeyrissjóðina ekki hafa heimild til þess að afskrifa þessi lán og fella niður það sem er innheimtanlegt. Hann segir þá aftur á móti tilbúna til þess að skoða það hvort einhver lending geti náðst um það að ríkið, t.d. Íbúðalánasjóður, kaupi ákveðinn fjölda af slíkum lánum, að loknu umsóknarferli og mati, og greiði í staðinn með skuldabréfum sem bera ríkisábyrgð. Hann segist vonast til þess að heyra frá stjórnvöldum í dag um hvort og þá með hvaða hætti framhald verði á þessum viðræðum en hann bætir við að á síðustu mánuðum hafi farið fram mikil vinna við þetta.