Starfsmenn Fréttablaðsins ræddu möguleikann á því að leggja niður störf síðastliðinn föstudag og koma í veg fyrir að blaðið kæmi út á laugardag. Hugmynd þar um var viðruð í hópi lykilstarfsmanna vegna megnrar óánægju með þá ákvörðun Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365 miðla, að segja Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni ljósmyndadeildar 365, upp störfum. Starfsfólki fyrirtækisins var tilkynnt um brottreksturinn undir lok liðinn­ar viku. Morgunblaðið greinir frá.

Í yfirlýsingu sem samþykkt var einróma á fundi starfsmanna Fréttablaðsins og Vísis 8. ágúst síðastliðinn mótmæla þeir harðlega óverðskuldaðri uppsögn yfirmanns ljósmyndadeildar 365, Pjeturs Sigurðssonar.

Í gær var einnig greint frá því að Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hefði sagt upp störfum, en hún vildi ekki tjá sig um uppsögnina þegar Viðskiptablaðið ræddi við hana.

Seinni partinn í gær sendi Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður 365 miðla, svo tölvupóst á starfsmenn fyrirtækisins þar sem hún sagði að faglegur ágreiningur hefði ráðið uppsögn Pjeturs. Póstur Ingibjargar hljóðaði svo í heild sinni:

Kæru samstarfsmenn

Vegna tilkynningar sem ákveðinn hópur á fréttastofu 365 sendi á mig og fjölmiðla í morgun, vil ég taka fram að fyrirtækið 365 eins og önnur fyrirtæki standa oft frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfsmönnum. Að baki því kunna að liggja ýmsar ástæður hverju sinni. Í tilfelli Pjeturs var uppi faglegur ágreiningur milli undirmanns og yfirmanns, sem endaði með uppsögn. Slíkt gerist því miður í öllum fyrirtækjum hvar sem er í heiminum og er alltaf erfitt.

Eigendur og yfirstjórn 365 hafa aðeins eitt að markmiði að standa að vandaðari fjölmiðlun og afþreyingju og reka gott fyrirtæki. Mikilvægt er að við sem ein liðsheild tölum saman og gerum góða fréttastofu og fyrirtækið enn betra.

Rétt er að fram komi vegna umfjöllunar um uppsögn Fanneyjar Birnu Jónsdóttur, aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins, að hún sagði sjálf upp störfum 30. júní sl. Ástæður uppsagnarinnar voru persónulegs eðlis.

Þá vil ég að lokum taka fram að 365 er fjölskyldufyrirtæki. Von mín er að við stöndum saman sem ein fjölskylda.

Með bestu kveðju

Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir

Stjórnarformaður og aðaleigandi 365

Ég tek fram að þessi póstur er einungis ætlaður starfsmönnum 365