Skömmu eftir bankahrunið haustið 2008 stöðvuðust framkvæmdir við ráðstefnu- og tónlistarhúsið, er síðar fékk nafnið Harpa. Eftir hrunið kom sá möguleiki til alvarlegrar skoðunar hjá hinu opinbera, m.a. innan ráðuneyta og hjá fjárlaganefnd Alþingis, að hætta alfarið framkvæmdum og láta hreinlega rífa húsið. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu í dag.

Aðrir möguleikar voru að halda áfram eða að loka byggingunni þannig að hægt yrði að hefja framkvæmdir síðar, þegar kreppan væri afstaðin. Eftir nokkra krísufundi, þar sem listamenn voru m.a. fengnir til að sannfæra embættis- og bankamenn um þýðingu og hlutverk hússins fyrir menningarlíf þjóðarinnar, ákváðu ríki og borg að halda framkvæmdum áfram. Útreikningar sýndu að hagkvæmara væri að stoppa ekki en þá var spurningin hvernig staðið yrði að fjármögnun þar sem Portus, félagið sem átti að byggja og reka húsið, var komið í þrot.

Stefán Hermannsson er nýlega hættur sem framkvæmdastjóri Austurhafnar. Þó að það geti vel hafa verið rætt innan stjórnsýslunnar eða bankanna að rífa húsið segir Stefán félagið aldrei hafa reiknað kostnað við þá leið, hún hafi að þeirra mati verið fjarlægur möguleiki. Að sögn Stefáns lét Austurhöfn hins vegar reikna út þrjá valmöguleika. Í fyrsta lagi að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist, en þá var kostnaður við að klára dæmið metinn rúmir 13 milljarðar. Í öðru lagi að pakka „mjúklega saman“, þannig að verktakar færu ekki á hausinn, og fresta framkvæmdum tímabundið. Það var talið kosta sex milljörðum meira. Þriðji kosturinn, sem Stefán segir hafa verið talinn verstan, var að stöðva verkið endanlega. Það var talið kosta 10 milljörðum meira en að halda áfram.