*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 30. apríl 2020 20:15

„Til hvers eru bankar?“

Sigurður Ingi Jóhannsson segir að bankarnir geti ekki ætlast til að allar byrðar verði settar á ríkið. Þeir þurfi sjálfir að styðja við hagkerfið.

Ritstjórn
Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Eva Björk Ægisdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, kallaði eftir því að bankarnir tækju þátt í að styðja við atvinnulífið í gengum núverandi hremmingar í Kastljósi í kvöld. Ekki væri hægt að ætlast til þess að allar byrðar væru settar á ríkið. „Hver er ríkið — það eru við sjálf," sagði Sigurður Ingi.

„Ég hlustaði á niður í þingi fyrir nokkrum dögum og fór að velta fyrir mér hvort allir ætluðu að vera með þessa kröfu að það væri hægt að sækja endalausa fjármuni til ríkisins. Á meðan við verðum auðvitað öll að leggjast á eitt. Hér voru hagfræðingar frá bönkunum. Ég fór að velta fyrir mér til hvers eru bankar? Eru þeir ekki til þess að styðja við atvinnulíf og heimilin í landinu en ekki verða kröfuhafi á ríkið," sagðir Sigurður Ingi.

Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka var í viðtali í Kastljósi á mánudaginn þar sem hún kallaði eftir því að ríkið kæmi með myndarlegri hætti að ferðaþjónustunni.. Kristrún sagði við Viðskiptablaðið í síðustu viku að hjálpa þyrfti ferðaþjónustunni í gegnum núverandi aðstæður. Það yrði ódýrara fyrir ríkissjóð til lengri tíma ef hægt væri að forða fjöldagjaldþroti í greininni „Ég held að það séu mikil mistök fólgin í því að veita þessum fyrirtækjum ekki líflínu í nokkrar vikur eða út sumarið, þar til við áttum okkur á myndinni. Þetta eru náttúruhamfarir sem ganga yfir núna, ekki hefðbundin hagsveifla,“ sagði Kristrún.

Á þriðjudaginn tilkynntu stjórnvöld frekari aðgerðir til stuðnings ferðaþjónustunni með framhaldi á hlutabótaleiðinni, sem mun einnig ná til launa á uppsagnarfresti, sem og að einfalda fyrirtækjum að fara í greiðslustöðvun.

Sjá einnig: Svigrúm til að prenta krónur

Sigurður Ingi benti á að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hafi verið að tryggja bönkunum nægjanlegt lausafé til þess að þeir gætu stutt við atvinnulífið í heimsfaraldrinum. „Ég gat ekki heyrt annað hjá yfirstjórn bankanna á þeim tíma að þeir væru tilbúnir til þess.“ Hins vegar heyrist nú frá fólki að það hafi ekki gerst.

„Ég vonast svo sannarlega til þess að það sé ekki tóninn að það eigi að setja allar kröfur á ríkisvaldið vegna þess að við verðum öll að takast á við þetta. Þeir sem eru betur í stakk búnir en aðrir — þeir verða að þola þær birgðar líka," sagði Sigurður Ingi.

Gagnrýni á lán með ríkisábyrgð

Gagnrýni hefur komið á stjórnvöld vegna lána með ríkisábyrgð. Skilyrði fyrir svokölluðum brúarlánum með 70% ríkisábyrgð það ströng að hugsanlega séu fáir sem uppfylli skilyrði fyrir þeim. Þá óttast margir innan bankakerfisins fordæmi sem sett hafi verið með umboðssvikadómum eftir bankahrunið, nú þegar lána á ferðaþjónustufyrirtækjum sem alls óvíst er hvenær geti hafið eðlilega starfsemi á ný og eigi lítið af veðum til að leggja fram gegn lánum.

Ríkisendurskoðun og Samtök fjármálafyrirtækja hafa einnig velt vöngum yfir því hvers vegna fara þurfi í gegnum bankakerfið með  stuðningslán til minni fyrirtækja með 100% ríkisábyrgð. Hugsanlega væri heppilegra væri að ríkið sæi sjálft um að veita slík lán án aðkomu bankanna.