Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur stungið upp á því að veggjöld verði liður í að fjármagna göng til Seyðisfjarðar, undir Fjarðarheiði. Þetta kemur fram í bréfi sem bæjarstjórn hefur sent til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, innanríkisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Ég held að allur almenningur hér sé hlynntur því að gera það þannig,“ segir Unnar Sveinlaugsson, fulltrúi Framsóknarflokks í bæjarstjórn. Hann segir aðspurður að gjaldheimtan gæti verið áþekk því sem þekkist í Hvalfjarðargöngum, án þess þó að nokkur ákvörðun hafi verið tekin hvað það varðar.

Bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að göngin verði að veruleika og að framkvæmdir við þau hefjist ekki síðar en 2017.