Það tala margir með glampa í augum um það þegar Ísland verður olíuríki og svo framvegis. Þá er rétt að spyrja Gunnlaug Jónsson, stjórnarformann Kolvetna, sem er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur fengið leyfi til leitar á Drekasvæðinu, um hreinskilið svar við því hversu langt sé í mögulega olíuvinnslu, hvað þurfi að gera og hversu vel Íslendingar eru í stakk búnir til að verða mögulega olíuríki.

„Þetta gerist á mjög löngum tíma og það er jákvætt að hér hafi verið stofnuð þrjú félög sem vonandi verða öll með leyfi innan skamms,“ segir Gunnlaugur í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Það sem við mælum þó með er að það verði ekki farið út í miklar fjárfestingar, t.d. í mannvirkjum, til að styðja olíugeirann á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það að það gæti farið svo að það finnist ekki olía á svæðinu. Það gæti líka tekið nokkra áratugi áður en við finnum olíu og þá á eftir að koma í ljós hvort hún sé vinnanleg eða ekki. Í ljósi þeirra kringumstæðna ættum við að stíga varlega til jarðar og bíða með stækkun á flugvöllum, hafnarframkvæmdir, byggingu skóla og sjúkrahúsa og svo framvegis í litlum bæjum sem menn sjá fyrir sér og vona að verði stórir olíubæir. Við höfum allt sem þarf til að stunda rannsóknir. Skipin sem hafa sinnt endurvarpsmælingum hafa t.d. getað lagst að bryggju á Íslandi og fengið þá þjónustu sem þau hafa þurft.“

Hvað er þá að fara að gerast næstu árin?

„Í raun ekki mikið,“ segir Gunnlaugur og brosir við.

„Stóra breytan í þessu er að eitthvað finnist af olíu og leitin sjálf gerist ekki með mikilli sprengingu. Stóru kostnaðarliðirnir í leitinni er aðkeypt verktakaþjónusta, t.d. við mælingar eins og verið hefur til þessa. Það eru erlend fyrirtæki í því sem sigla hingað á skipunum sínum og sigla síðan burt. Það sama á í raun við um boranir. Við byrjum á því sem er ódýrt, en það eru endurvarpsmælingarnar. Þá sjáum við að það er óhætt að taka fleiri og fleiri skref og fara í kostnaðarsamari aðferðir.“

Gunnlaugur segir mikilvægt að Íslendingar séu niðri á jörðinni og byggi ekki upp of miklar væntingar.

„En það er auðvitað til mikils að vinna og þetta er áhættunnar virði að okkar mati,“ segir Gunnlaugur.

„Við nálgumst þetta þannig að við viljum vera ánægðir með okkur og okkar framlag í þessu eftir nokkra áratugi — jafnvel þó við finnum ekki neitt. Það er ákveðin niðurstaða líka að komast að því að þarna sé ekki vinnanleg olía. Við viljum vita, hvernig sem fer, að við höfum komið fram af virðingu við fólk, umhverfið og það fjármagn sem mun þurfa til.“

Gunnlaugur bendir á að færeysku félögin Atlantic Petroleum og Faroe Petroleum voru stofnuð fyrir um 12 árum til að leita að olíu í færeyskri lögsögu. Þar hefur þó verið borað nokkrum sinnum og þar hefur ekki fundist olía í vinnanlegu magni, en bæði þessi félög eiga í dag hlutdeild í olíuframleiðslu í Norðursjó.

„Við teljum að við getum farið svipaða leið. Við höfum áhuga á því að dreifa áhættunni, þannig að við gætum tekið þátt í verkefnum í öðrum löndum þegar fram í sækir,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur Jónsson hefur í rúm sex ár unnið að því að undirbúa olíuleit á Drekasvæðinu. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Gunnlaugur yfir rannsókna- og vinnsluferlið, norsku fyrirmyndina að olíuvinnslu og það hvaða væntingar Íslendingar geta gert til mögulegrar olíuvinnslu á svæðinu. Þá tjáir Gunnlaugur sig jafnframt um Sjálfstæðisflokkinn sem hann sagði sig úr fyrir rúmum tíu árum og það hvernig flokkurinn viðhélt að hans mati pilsfaldakapítalisma undir merkjum hægri stefnunnar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér efst á síðunni.