,,ÉG var alveg gáttaður þegar ég las í einhverju dagblaðanna, að allir þingmenn - já allir - hefðu samþykkt lög, sem banna reykingar á veitingastöðum. Að vísu máttu reykingamenn „púa“ að uppfylltum skilyrðum, sem nær ógjörlegt var að verða við. Mér þótti þetta svo fáránlegt að mér datt fyrst í hug að forvitnilegt væri að fá að vita hver yrðu meðalstig alþingismanna ef þeir væru látnir ganga undir gáfnapróf. Það fáum við víst aldrei að vita.
Gott ráð er þó til við þessari uppákomu. Þið skuluð bara setja hóflega stórt spjald út í glugga eða á hurðina á veitingastöðunum með áletrun, sem gæti verið á þessa leið: „Aðeins fyrir reykingamenn! Þó geta þeir sem ekki reykja, fengið afgreiðslu - á eigin ábyrgð.“

Guðmundur heldur áfram:

,,Með þessu eru engin lög brotin og yfirvöld hljóta að skilja það að einhvers staðar þurfa „vondir“ að vera. Haldi stjórnvöld áfram að jagast í ykkur er áreiðanlega auðvelt að kæra til Mannréttindadómstólsins hvar sem hann nú er staddur.

,,Sjálfur reyki ég ekki, svo þetta mál snertir mig ekki persónulega.

Að lokum vil ég þó benda reykingamönnum á að það væri gáfulegt að skipta yfir í neftóbak. Það er hollt, gott og tiltölulega ódýrt.

Með baráttukveðjum, GUÐMUNDUR JÓNSSON, söngvari,"

Til á prenti birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum Tölublöð.