„Þeir Davíð og Kári voru saman i Menntaskólanum í Reykjavík seint á sjöunda áratugnum og mynduðust talsverð tengsl milli þeirra. Kári var þá í fylkingarbrjósti þeirra stúdenta sem þóttu hvað róttækastir og það má segja að hann og Davíð hafi blekkt þegna sína þegar Davíð bauð sig fram til embættis inspector scholae, forseta Framtíðarinnar fyrir hönd „kommaklíkunnar“. Þeirri klíku stýrði Kári og var framboðinu stefnt gegn ættarveldi „yfirstéttarinnar“ í Framtíðinni en mótframbjóðandi var Þorvaldur Gylfason Gíslasonar og mátti hann lúta í gras gegn Kára og Davíð. Kári hefur síðar lýst eftirleiknum svo að Davíð hafi varpað sauðargærunni líkt og Castró og ekki reynst vera sá vinstri róttæklingur sem hann lést vera í kosningabaráttu.“

Þessi texti birtist í Dagblaðinu Vísi — DV árið 1999 þar sem fjallað var um bók sagnfræðingsins Guðna Jóhannessonar. Bókin fjallar um Kára Stefánsson, forstjóra íslenskrar erfðagreiningar, og hvernig hann gæti orðið ríkasti maður Íslands ef draumar hans um skráningu ÍE á amerískum hlutafjármarkaði yrðu að veruleika.