Þeir ráðherrar sem enn sitja í ríkisstjórn frá árinu 2008 sýndu verkefninu um tónlistar- og ráðstefnuhús engan sérstakan áhuga meðan að þáverandi fjármálaráðherra en ekki síst forsætisráðherra, Geir H. Haarde, fylgdist með hverju skrefi sem tekið var og studdi þær ákvarðanir sem fyrir voru lagðar vegna fjárlagagerðarinnar. Svo verkefnið héldi áfram og yrði klárað. Borgarstjóri þáverandi stóð einnig vaktina í lok árs 2008 og hélt henni síðan áfram í samvinnu við núverandi mennta- og menningarmálaráðherra sem eflaust varð líka fyrir þrýstingi ýmsum.

Eiga þær stöllur, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Katrín Jakobsdóttir mikinn heiður skilinn. Talandi um erfiða tíma þá hefði einnig verið afar þungbært að hætta framkvæmdum og þar með ákveða að um 600 Íslendingar, eins og smiðir, verkfræðingar, píparar, hönnuðir, tæknifræðingar, rafvirkjar, hefðu misst vinnuna á sama tíma og atvinnustig var hríðlækkandi í landinu. En einhvern veginn er eins og önnur lögmál gildi þegar kemur að uppbyggingu á sviði menningarmála. Eins og það sé erfitt að hugsa menninguna í stærra samhengi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði þetta í Fréttablaðið í maí 2011. Fréttamaður CNN gæti tekið undir orð Þorgerðar því CNN hefur birt lista yfir tíu áhugaverða staði og Reykjavík er þar á meðal. Fréttamaðurinn tekur Þar fram að tónlistar- og ráðstefnuhúsið sé það sem hafi helst vakið hrifningu.