„Um áraraðir hafa bestu laga- og textasmiðir Íslands keppst við að semja lög og leggja verk sín undir dóm granna okkar í Evrópu. Ávallt höfum við og ekki síst þeir verið fullvissir um það fyrirfram, að Ísland myndi sigra. Nema hvað! Eigum við ekki kröfu á því? Er það ekki hin sanna ímynd af Íslandi? Langbestir! Og þegar þetta fólk hafnar okkar framlagi ár eftir ár – nú þá er að sýna því fingurinn. Hvað annað? Brjóta stóla. Svívirða saklausa. Orga, grenja og ofstopast. Hrækja á nærstadda. Allt í nafni þjóðarinnar.

Sú landkynning kostaði ekki nema 100 milljónir – að sögn. Og hvílíkur árangur. Hrækingarnar komu Íslandi í heimsfréttirnar sem aldrei fyrr. Aldrei hefur okkur tekist jafn vel til um kynningu á landi og þjóð! Því til vitnis leiði ég ummæli „Heyrt og séð“ liðsins af síðum blaðanna – fólksins, sem er frægt fyrir að vera frægt. Það segir hreint út, að aldrei hafi litla Ísland orðið frægara í útlendum blöðum en eftir þessa stórkostlegu uppákomu. Framtíðin blasi við frammistöðustúlkunni. Þá skorti bara skopskyn, sem ekki voru ánægðir. Þeir skilji ekki brandarann. Séu húmorslausir líkt og þeir, sem hlæi að Spaugstofunni. Sem sé algerir nördar!

Nú geri ég þá játningu, að ég er svona nörd. Ég skammaðist mín botnlaust fyrir það framferði, sem flutt var í nafni og á kostnað íslensku þjóðarinnar – ekki meðan á sjálfri söngkeppninni stóð heldur með viðbrögðum íslenska keppandans á undan og á eftir. Og ég er ekki einn um það. Fólkið mitt í útlöndum skammaðist sín líka. Fyrir hana. Fyrir þá, sem láta svona gerast í nafni Íslendinga. En hvað viljum við upp á dekk? Gamalt fólk eins og ég. Gersamlega húmorslaust.“

Sighvatur Björgvinsson, þáverandi framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, í Morgunblaðinu 26. maí 2006.