Til að létta á efnahagsreikningi Arion banka er til skoðunar hjá eigendum bankans að taka úr eignarhaldi bankans eignir sem ekki hafa grundvallarþýðingu í rekstrinum til að auðvelda söluna og mögulegar arðgreiðslur.

Er meðal annars til skoðunar að eignarhlutur bankans í vátryggingarfélaginu Verði og greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor verði færðir í sérstakt eignarhaldsfélag í eigu eigenda bankans að því er heimildir Morgunblaðsins herma.

Einnig kæmi til greina í þessu samhengi að taka í sérfélag eða félög 38,4% hlut bankans í Farice sem og 23% hlut hans í Reiknistofu bankanna.

Gerir útborgun eiginfjár einfaldari

Tilgangurinn væri annars vegar að minnka efnahag bankans og auðvelda sölu hans í framhaldinu, sem og það myndi gera sölu þessara eignarhluta einfaldari.

En einnig er ljóst að ef þessar eignir væru ekki á efnahagsreikningi bankans myndi það auðvelda útborgun eiginfjár í formi arðs vegna reglna þar um.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gætu eigendurnir greitt sér allt að 70 milljarða króna arð ef þeir myndu lækka eiginfjárstöðu bankans.