Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segist stefna að því að afgreiða frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina úr nefnd í næstu viku.

Hann segir að nefndin sé enn að skoða ýmsar hliðar málsins. Meðal annars sé til athugunar að breyta forsendum fyrir endurskoðunarákvæðunum í Icesave-samningunum.

Þá eigi á morgun að fjalla nánar um þá gagnrýni sem Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður hefur sett fram um forgangskröfur íslenska tryggingasjóðsins.

Guðbjartur segir enn fremur stefnt að því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skili áliti sínu á mánudag. Eftir það verði væntanlega gengið frá nefndarálitum. „Allt tekur þetta sinn tíma," segir hann.

Þegar málið hefur verið afgreitt úr nefnd fer það í aðra umræðu á þingi en frumvörp fara í þrjár umræður áður en þau fara til lokaatkvæðagreiðslu.