„Það er verið að skoða möguleikana á því að fá erlent fjármagn inn í kerfið,“ segir Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Seðlabanka Íslands í samtali við Viðskiptablaðið en bætir því við að ekki sé hægt að upplýsa um þetta nánar fyrr en það sé frágengið.

Geir H. Haarde forsætisráðherra áréttaði í ræðu sinni á aðalfundi Seðlabankans fyrir helgi að hann teldi eðlilegt að ríkissjóður héldi áfram á þeirri braut að taka erlent lán og nýta andvirðið til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Slíkt lán tók ríkissjóður fyrir rúmu ári. Seðlabankinn sér um slíkar lántökur fyrir hönd ríkissjóðs og nú væri þetta til skoðunar hjá Seðlabankanum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, vék einnig að þessu í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á sunnudag. Hún útilokaði þar ekki umtalsverðar lántökur af hálfu ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .