Til tíðinda gæti dregið í kjaradeilu flugfreyja og þjóna við Icelandair á morgun, miðvikudag, en samninganefndir Flugfreyjufélagsins (FFÍ) og viðsemjenda þeirra hittast þá hjá ríkissáttasemjara fyrir hádegi.

Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, segir að framhald kjaraviðræðnanna ráðist á fundinum.

„Þótt við séum þolinmóðar þá fer þolinmæðin að bresta,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið. „[Viðræðurnar] eru búnar að taka ofboðslega langan tíma.“

Kjarasamningur félagsins við Icelandair rann út í lok síðasta árs og var kjaradeilunni vísað til sáttasemjara í mars síðastliðnum. Lítið hefur þokast síðan þá. Þó hafa aðilar komið sér saman um að samningstími verði stuttur; hugsanlega eitthvað fram yfir áramót.

Félagsfundur FFÍ samþykkti um miðjan apríl að hefja undirbúning að boðun verkfalls félagsmanna hjá Icelandair. Þegar Sigrún er spurð hvort sá undirbúningur sé hafinn, svarar hún: „Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd fundaði í [gær]morgun. Þar var tekin ákvörðun sem verður ekki upplýst fyrr en eftir fundinn á miðvikudag.“

Hún kveðst ekki vilja segja nánar frá þeirri ákvörðun að sinni af virðingu við viðsemjendur sína. Hún vilji fyrst ræða þá ákvörðun við þá.

Þegar Sigrún er spurð út í helstu kröfur flugfreyja nefnir hún meðal annars þá sömu krónutöluhækkun á launataxta og samið var um í samningum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í febrúar síðastliðnum.

Auk þess eru flugfreyjur með ýmsar aðrar kröfur sem snúa sérstaklega að starfinu. Kjarasamningar FFÍ við Iceland Express og Flugfélag Íslands eru líka lausir en þær viðræður eru mun skemmra á veg komnar, að sögn Sigrúnar. Þeim viðræðum hefur heldur ekki verið vísað til sáttasemjara.

Icelandair Group og Iceland Express eru innan vébanda Samtaka atvinnulífsins. Rúmlega sex hundruð félagsmenn eru í Flugfreyjufélagi Íslands.