Bandaríska kleinuhringjakeðjan Krispy Kreme opnaði sitt fyrsta útibú hér á landi á laugardaginn fyrir viku í nýrri verslun Hagkaupa í Smáralindinni.

Michael McGill, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs fyrirtækisins lýsir því hvernig sérstaða Krispy Kreme tengist því hvernig staðurinn hóf göngu sína.

„Krispy Kreme var stofnað 1937 af Wernon Rudolf sem kom til borgarinnar Winston-Salem í Norður-Karólínu með fimm dali í vasanum og leynilega kleinuhringjauppskrift sem hann notaði til að opna fyrsta staðinn. Í raun var þetta fyrst eins konar heildsöluframleiðsla, þar sem hann framleiddi kleinuhringina og svo fór hann með þær í verslanir,“ segir McGill.

„Þegar fólk gekk framhjá fann það ilminn af kleinuhringjabakstrinum og hóf að banka upp á svo hann hugsaði með sér að hann þyrfti að koma þeim einhvern veginn til viðskiptavinanna beint, svo hann gerði gat á vegginn hjá sér og þannig var fyrsta Krispy Kreme verslunin opnuð.“

Framleiðslan fyrir opnum tjöldum

„Kleinuhringjaleikhúsið, eins og við köllum það, er okkar sérkenni og erum við stolt af því að geta gefið viðskiptavinum okkar tækifæri til að smakka upprunalegu kleinuhringina okkar, Original Glazed, beint af færibandinu,“ segir McGill sem lýsir því hvernig þeir eins og bráðni í munni manns þegar þeir eru enn heitir.

„Við erum stolt af því hjá Krispy Kreme að við höfum frábærar gæðavörur, sem eru framleiddar daglega, ferskar og hluti af því er að sýna viðskiptavinum okkar að þeir geta séð þá vera framleidda á hverjum degi.“

Í versluninni er nú kominn glerveggur þar sem hægt er að fylgjast með framleiðsluferlinu, en fremst í versluninni er sérstakt skilti sem lýst er upp þegar nýr skammtur af Original Glazed kleinuhringjunum eru á leiðinni af færibandinu.

Geta þá gestir fengið að smakka frían kleinuhring, en í Bandaríkjunum er hægt að sjá þegar kveikt er á þessum svokölluðu „Hot Light“ skiltum um langan veg þó enn um sinn sé skiltið einungis inni í verslun Hagkaupa í Smáralindinni.

„Hér höfum við hefðbundna verksmiðjuverslun, þar sem framleiðslulínan er í augsýn viðskiptavinanna og þeir geta séð gerð þeirra. Í Bandaríkjunum eru um 300 verslanir Krispy Kreme, og eru í næstum allar, eða um 95% þeirra með kleinuhringjaleikhús. Hún getur framleitt 220 tylftir kleinuhringja á klukkutíma, það eru hellingur af kleinuhringjum.“ segir McGill og brosir við.

„Við erum í yfir 28 löndum með meira en ellefu hundruð verslanir út um allan heim, en utan Bandaríkjanna er uppsetningin nokkuð öðruvísi. Þar höfum við hefðbundnar verksmiðjuverslanir og svo höfum við kaffihúsin og aðrar gerðir. Við köllum þær ferskverslanir, þangað sem kleinuhringirnir eru fluttir. Þetta er sama umhverfið með sömu kaffihúsaupplifuninni, frábæru kaffi, frábærum kældum drykkjum og frábærum kleinuhringjavörum, en án framleiðslubúnaðarins.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .