Actavis hefur ákveðið í kjölfar áreiðanleikakönnunar að hækka tilboð sitt í Pliva, í ljósi þeirra samlegðaráhrifa sem samruni félaganna getur skilað. Tilboðið er án fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Þá telur Actavis að tilboð félagsins sé mun áhugaverðara en tilboð Barr sem stjórn félagsins hefur mælt með segir í tilkynningu félagsins.

Í tilkynningu Pliva er greint frá því að stjórn félagsins styðji tilboð bandaríska lyfjafyrirtækisins Barr Pharmaceuticals Inc., sem hefur gert tilboð til hluthafa Pliva að upphæð 707 kúnur á hlut. Tilboð Actavis, sem sent var stjórn Pliva þann 26.júní, hljóðaði hinsvegar upp á 723 kúnur á hlut, til viðbótar við arðgreiðslu, eða alls 735 kúnur á hlut, sem samsvarar um 2.3 milljörðum dollara (rúmlega 170 milljarðar króna). Fjármögnun á kaupunum er frágengin og í umsjón JP Morgan, HSBC og UBS. Kaupin verða fjármögnuð með lánsfé og útgáfu forgangsréttarbréfa.

Actavis ákvað í kjölfar áreiðanleikakönnunar að hækka tilboð sitt í félagið, í ljósi þeirra samlegðaráhrifa sem samruni félaganna getur skilað. Tilboðið er án fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Þá telur Actavis að tilboð félagsins sé mun áhugaverðara en tilboð Barr sem stjórn félagsins hefur mælt með og færir fyrir því eftirfarandi rök eins og lesa má í tilkynningu félagsins:

Með samrunanum væri sameinað félag þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims, með starfsemi í um 40 löndum, 16.000 starfsmenn og með sterka samkeppnisstöðu á öllum helstu mörkuðum í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Actavis hefur á að skipa öflugu þróunarstarfi með um 300 lyf í þróun og skráningum, sem mun styðja verulega við markaðsstarf Pliva á þeirra helstu mörkuðum, en eins skapast tækifæri fyrir Actavis að skrá lyf Pliva inn á sína markaði.

Tilboð Actavis er án skilyrða um samþykki samkeppnisyfirvalda, ólíkt tilboði Barr, sem er háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Þýskalandi og í Bandaríkjunum.

Actavis fyrirhugar að flytja hluta af framleiðslu sinni til Króatíu, þar sem framleiðslukostnaður er lágur, auk þess að efla enn frekar þróunarstarf PLIVA og þannig styðja við þróunastarf félagsins á Íslandi.

Actavis mun leitast eftir því að skrá félagið í kauphöllina í Króatíu og þannig gefa fjárfestum PLIVA góðan aðgang að fjárfestingu í hlutabréfum samstæðunnar.

Actavis hefur skapað sér gott orðspor og reynslu af yfirtökum og samþættingu fyrirtækja í Evrópu og hefur á síðustu 7 árum keypt yfir 20 félög og samþætt með góðum árangri.

Búist við að samanlagðar tekjur samstæðunnar verði um 2,2 milljarða evra á árinu 2006 (um 210 milljarðar króna) og EBITDA framlegð verði um 23% á árinu 2007. Þá er búist við því að samlegðaráhrif við samruna félaganna, geti numið um 50 milljónum evra á árinu 2007 og 100 milljónum árið 2008 og árlega eftir það. Samlegðaráhrif taka ekki tillit til lækkun kostnaðar hjá Pliva vegna fyrirhugaðs flutnings á lyfjum milli verksmiðja, sem stjórnendur Pliva eru nú þegar að vinna að. Er varðar áhrif á hagnað á hvern hlut félagsins (EPS), þá er ekki búist við áhrifum á árinu 2007 (neutral impact), jákvæðum áhrifum árið 2008 (positive) og að áhrifin verði mest árið 2009 (strongly positive).

Verði tilboði Actavis til hluthafa Pliva tekið mun félagið gefa ítarlegri skýringar á væntalegum áhrifum kaupanna á rekstur og efnahag félagsins.

Actavis hefur í gær og í dag keypt hluti í PLIVA í gegnum kauphöllina í London og í Króatíu, samanlagt um 9,0%. Samkvæmt samningi króatíska fjárfestingarfélagið Quaestus sem félagið greindi frá í apríl sl. á félagið 0,7% af hlutafé PLIVA, þannig að heildareignarhlutur félagsins í dag nemur 9,7%. Auk þess hefur félagið gert kaupréttarsamning við þriðja aðila um kaup á 10,7% af útistandandi hlutafé félagsins. Alls hefur Actavis því yfirráð yfir með beinum eða óbeinum hætti 20,4% af útistandandi hlutafé félagsins.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis segir þetta um kaupin í tilkynningu félagsins: ?Við teljum tilboð okkar áhugavert fyrir hluthafa PLIVA og í kaupunum felist umtalsvert samlegðartækifæri fyrir Actavis. Við höfum enn mikinn áhuga á að eiga PLIVA að fullu og mynda þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Við vonumst til að fá formleg viðbrögð frá stjórn PLIVA við tilboði okkar og í kjölfarið að fá tækifæri til að leggja fram formlegt yfirtökutilboð til hluthafa PLIVA."