Fyrirhugað tilboð Avion Group í kanadíska fyrirtækið Atlas Cold Storage Income Trust er undir markaðsverði fyrirtækisins, að mati eins hluthafa fyrirtækisins, segir í frétt Dow Jones.

Íslenska fjárfestingafélagið Avion Group mun bjóða sjö kanadíska dali á hlut, en gengi bréfa í fyrirtækinu hefur nú hækkað í 7,65 dali á hlut. Í síðustu viku var gengi hlutabréfa í fyrirtækinu 6,74 dalir og höfðu þá ekki verið hærri í 52 vikur, segir í fréttinni.

Fasteignir fyrirtækisins einar eru meira virði en sjö dalir á hlut, segir framkvæmdarstjóri sjóðsfyrirtækisins ABC, Irwin Michael, en ABC á 3,1 milljónir hluta í fyrirtækinu.

Mikill uppvöxtur hefur verið í Atlas og ber því Michael miklar vonir um framtíð fyrirtækisins, en hann segist ekki lá Avion Group fyrir að leggja fram tilboðið, en bætir við að hlutbréf fyrirtækisins verði svo sannarlega ekki seld fyrir sjö dali, segir í fréttinni.

Miðað við núverandi gengi hlutabréfa fyrirtækisins má ætla að Avion hækki tilboð sitt, en Michael segir að vel gæti hugsast að annar aðili muni gera tilboð, en vildi þó ekki gefa upp hver það gæti verið, segir í fréttinni.

Avion á nú þegar 13,5% hlut í Atlas og segir því Michael að fyrirtækið geti ekki tapað, ef annar aðili býður hærra fái Avion hærri arð og ef þeir kaupa fyrirtækið hafa þeir tryggt sér góða fjárfestingu.