Helstu bankar heims fengu nýja áskorun inn á borð til sín þegar fjárfestirinn Warren Buffet bauðst til þess að taka við og tryggja bestu eignasöfnin þeirra, að því er kemur fram hjá Financial Times.

Milljarðamæringurinn sagði í viðtali við CNBC að hann væri tilbúinn að gangast í ábyrgð fyrir skuldabréf útgefin af sveitarfélögum og tryggð af skuldatryggingafélögunum Ambac, MBIA og FGIC. Félögin hafa átt í nokkrum vandræðum með að halda AAA lánshæfiseinkunn sinni eftir að undirmálslánakrísan gerði vart við sig.

Orð Buffet höfðu afar góð áhrif á hlutabréfamarkaðinn, sem hækkaði snöggt og tölur voru grænar víðast hvar um Evrópu. Hér er hins vegar um áskorun að ræða fyrir fjármálastofnanir og skuldatryggingafélög. Þrátt fyrir áhrifin á skuldabréfamarkað sveitarfélaga séu jákvæð fyrir sveitarfélögin sjálf, kemur það skuldatryggingafélögunum tæplega til góða til langs tíma litið. Né heldur er þetta til að auka trúverðugleika þeirra. Ekkert skuldatryggingafélaganna hefur tjáð sig um málið.