Markaðsgengi Mosaic Fashions er töluvert lægra en verðmöt greiningadeildana en það var 16,3 við lok dags í gær, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Greiningardeild Kaupþings metur félagið á 17,5 og markgengið á 20 en greiningardeild Landsbankans metur gengið á 20,3 og markgengið á 22,8. Greiningardeild Glitnis er með félagið í skoðun.

Viðskipti með bréf Mosaic Fashions voru stöðvuð í morgun en erlendir fréttamiðlar herma að Baugur íhugi að afskrá félagið og það gæti orðið á seinni hluta þessa árs.

Sérfræðingar á markaði velta því fyrir sér, ef af yfirtökutilboði verður, að tilboðið verði einhverstaðar á milli markaðsgengis og verðmatsgengi greiningadeildanna. Frá markaðsgengi og verðmatsgengi greiningardeildar Kaupþings er 7% munur en munurinn er 24,5% ef miðað er við verðmatsgengi greiningardeildar Landsbankans. Ef miðað er við markgengi, er munurinn meiri.

Sérfræðingar telja að miðað við þróun á gengi félagsins á markaði gætu margir fjárfestar verið áhugasamir um að selja. En þeir benda einnig á að horfur eru góðar á breska tískuvörumarkaðnum.

Hagnaður Mosaic Fashions nam 10,7 milljónum punda (1,37 milljörðum króna) á fjárhagsárinu 2007, samanborið við 12,6 milljóna punda (1,6 milljarða krónu) hagnað árinu áður, sem samsvarar 15% samdrætti, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Baugur á 37,34% hlut í Mosaic Fashions samkvæmt upplýsingum í hlutahafaskrá.