Samtals skiluðu 36 lögaðilar inn tilboði í útgerðarfyrirtækið Festi í Hafnarfirði, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Landsbankinn er með fyrirtækið í sölumeðferð, í umboði skiptastjóra. Ráðgert er að klára sölu á fyrirtækinu fyrir 30. desember. Festi gerir út fimm línubáta og einn dragnótarbát, auk þess að vera með vinnslu í landi. Fyrirtækið ræður yfir 1.656 þorskígildistonnum.

Samtals kölluðu 104 aðilar eftir gögnum um eignir og rekstur fyrirtækisins, eftir að söluferlið var auglýst.

Tilboðin sem borist hafa eru óskuldbindandi enn sem komið er. Tilboðsgjafar verða síðan beðnir um trúverðuga áætlun um fjármögnun á síðari stigum. Að því loknu munu menn leggja fram skuldbindandi tilboð í fyrirtækið, sem síðan verður tekin endanleg afstaða til.