Verslanir voru troðfullar af fólki í Bandaríkjunum í dag og var fólk að nýta sér mikinn afslátt og lengri opnunartíma. Um síðustu helgi hafði aðeins um einn fimmti hluti landsmanna lokið jólainnkaupum að því er Bloomberg.com greinir frá og hefur jólaverslun ekki farið jafn hægt af stað í fimm ár.

Eins og vb.is hefur áður greint frá hefur jólaverslun farið hægt af stað í Bandaríkjunum. Verslanir hafa því bruðið á það ráð að auka tilboð og lengja opnunartíma. Margar verslanir hafa verið opnar frá kl. 7 á morgnana til miðnættis frá því í byrjun vikunnar. Margar verslanir, meða annars J.C. Penney, Macy's, Sears og fleiri voru með vörur á 50% afslætti þessa helgi.

Wal-mart byrjaði með tilboð tveimur vikum fyrr en venulega og lækkaði verð á ýmsum vörum í byrjun október. Síðan þá hafa tilboðsvörurnar lækkað enn um allt að 20%. Kmart verður með opið til kl. 22 á aðfangadag en flestar aðrar stórverslanir loka kl. 18 á morgun.

Bloomberg.com hefur það eftir ShopperTrak, sjálfstæðri rannsóknarmiðstöð um smásöluverslun, að búist sé við söluaukningu milli mánaða upp á 3,6% í desember. Það er þó undir væntingum og hefur eins og fyrr segir ekki verið lægra síðan 2002.

Á meðan Standard & Poor's 500 vísitalan hefur hækkað um 4,7% á árinu hefur sá hluti hennar sem snýr að smávöruverslun lækkað um 17% á þessu ári.

Viðmælendur Bloomberg.com segja að jafnvel þó þessi tilboð fyrir jólin dragi fólk inn í verslanirnar sé hagnaðurinn ekki jafn mikill og ella væri auk þess sem lengri opnunartími krefðist meiri rekstrarkostnaðar. Annar sagði þó að almenningur færi í búðirnar til að gera góð kaup á tilboðum en keypti síðan aðrar vörur í sömu verslun á fullu verði. Þannig jafnist þetta út. Það mun væntanlega skýrast á næstu mánuðum þegar smásöluverslanir skila inn uppgjöri fyrir þetta tímabil hvort söluaðferðir desembermánaðar hafi borið árangur.