Tilboð í  í 15,203% eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf., verða opnuð næstkomandi mánudag að viðstöddum tilboðsgjöfum. Mun framkvæmdanefnd um einkavæðingu opna tilboðin í viðurvist allra bjóðenda og að viðstöddum fréttamönnum.

Fyrirkomulag sölu gerir ráð fyrir að hæsta gilda tilboði verði tekið ef það telst ásættanlegt. Aðeins verður tekið við tilboðum sem eru í samræmi við söluskilmála og frá aðilum sem samþykkt hafa endanleg drög að kaupsamningi. Í þeim samningi er gerður fyrirvari um að félagið sjálft og núverandi hluthafar eigi forkaupsrétt að eignarhlutnum, í samræmi við samþykktir Hitaveitu Suðurnesja hf.

Verði tilboði hæstbjóðanda tekið, er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra og nýir eigendur eignarhlutarins í Hitaveitunni skrifi undir kaupsamning í byrjun maí.

Þann 2. apríl sl. rann út frestur til að lýsa yfir áhuga á kaupum á eignarhlutnum. Tíu aðilar tilkynntu framkvæmdanefnd um einkavæðingu um áhuga og uppfylltu þeir allir skilyrði sem sett voru í auglýsingu fyrir því að mega bjóða í eignarhlut ríkisins.