Tilboð verða opnuð kl. 14:00 í dag í byggingarhluta Búðarhálsvirkjunar BUD-01, í húsakynnum Landsvirkjunar Háaleitisbraut 68, 103 Reykjavík.  Opnun tilboða er öllum opin, en þar eru lesin upp þau tilboð sem berast í verkið auk kostnaðaráætlunar, að því er segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Í útboðsverkinu felst byggingarvinna við Búðarhálsvirkjun og er verkinu skipt í þrjá verkhluta:

1) Verkhluti-11, Sporðöldustífla, jarðvegsstífla í tveimur hlutum, alls tæplega 1300 m löng og 25 m há þar sem hún er hæst. 2) Verkhluti-14, aðrennslisgöng, alls um 4 km að lengd. 3) Verkhluti-15, stöðvarhús, inntaksmannvirki og frárennslisskurður.

Áætlað er að verkið hefjist fyrir árslok og  að virkjunin verði komin í fullan rekstur fyrir árslok 2013.  Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi ársverka sem skapist á Íslandi vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar verði á milli 600 til 700 yfir allan framkvæmda¬tímann.  Þegar flest verður á vinnustað verða þar um 300 manns.

Verkið er boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu eins og skylt er að gera um verk af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir.

Í tilkynningu segir enn fremur:

"Að lokinni opnun tilboða fara Landsvirkjun og ráðgjafar hennar yfir þau tilboð sem borist hafa.  Að því búnu taka við skýringarviðræður um einstök atriði tilboða og að þeim loknum er gengið til samninga.  Gert er ráð fyrir að liðið geti um tíu vikur frá opnun tilboða þar til endanlegur verksamningur á milli Landsvirkjunar og verktaka liggur fyrir.  Áskilið er í útboðsgögnum að tilboð sem berast gildi í 126 daga frá opnun tilboða."

Eins og greint hefur verið frá í Viðskiptablaðinu er heildarkostnaður Búðarhálsvirkjunar áætlaður um 200 milljónir dollara. Framkvæmdin í heild hefur ekki verið fjármögnuð að öllu leyti en vonir standa til þess að það klárist innan skamms tíma.