Tilboð verða opnuð kl. 15:00 í dag í vél- og rafbúnað Búðarhálsvirkjunar, í húsakynnum Landsvirkjunar Háaleitisbraut 68, 103 Reykjavík.  Um er að ræða lokað útboð sem var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu eins og skylt er að gera um verk af þessu tagi, að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Fimm bjóðendur voru valdir hæfir í framhaldi af forvali.  Opnun tilboða er öllum opin, en þar eru lesin upp þau tilboð sem berast í verkið auk kostnaðaráætlunar.

Í verkinu felst hönnun, framleiðsla og uppsetning á öllum vél- og rafbúnaði virkjunarinnar.  Um er að ræða tvær vélasamstæður, samtals 85MW, ásamt stoðkerfum og stjórnbúnaði.

Áætlað er að verkið verði framkvæmt á árunum 2011-2013 og að aflvélar virkjunarinnar verði komnar í fullan rekstur fyrir árslok 2013.

Í lok ágúst síðastliðnum voru tilboð opnuð í byggingarvinnu fyrir Búðarhálsvirkjun en verkinu er skipt í þrjá verkhluta, stíflu, göng og stöðvarhús.  Tilboð frá sjö aðilum bárust í þessa verkhluta og er nú unnið að yfirferð þeirra.  Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við byggingarvinnu hefjist fyrir lok árs 2010.

Umfang byggingarvinnu ásamt vinnu við vélar og rafbúnað er um 90% af heildar-framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun.  Útboð á smíði og uppsetningu á stállokum og þrýstivatnspípum verður auglýst fyrir lok ársins ásamt útboði vegna eftirlits með framkvæmdum og útboði vegna reksturs mötuneyta og vinnubúða.

Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi ársverka sem skapist á Íslandi vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar verði á milli 600 til 700 yfir allan framkvæmdatímann.  Þegar flest verður á vinnustað verða þar um 300 manns, að því er segir í tilkynningu Landsvirkjunar.