Flugfélagið Icelandair hefur síðustu vikur auglýst tilboð til Þýskalands á 16.900 krónur aðra leiðina en þau sæti seldust fljótt upp að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa félagsins. Hann vill ekki gefa upp hve mörg sæti hafi verið í boði á þessu verði en segir að þau hafi fyrst og fremst verið í boði í haust og næsta vetur.

Hann segir að lægsta skráða verðið til Þýskalands hafi síðar í dag verið hækkað upp í 19.050 krónur aðra leiðina og segir Guðjón að þau sæti séu líka fyrst og fremst í boði í haust og næsta vetur. Sárafá sæti séu á því verði nú yfir háannatímann. Hann segir enn fremur ekki hægt að gefa upp hve mörg sæti á þessu verði séu í boði. Það ráðist af eftirspurninni.

Þegar vefur Icelandair er hins vegar skoðaður er enn talað um að hægt sé að fá ferðir  til Þýskalands á 16.900 kr. Þar kemur til dæmis fram að lægsta verðið aðra leið til Berlínar, Frankfurt og München sé frá 16.900 krónum.

Fargjöld hækkuðu í kjölfar hrunsins

Guðjón segir aðspurður að flugfargjöld hjá félaginu hafi almennt hækkað í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október. „Þau hafa þróast í takt við gengismálin. Við höfum breytt strúktúrnum svolítið þannig að við miðum við evrur í okkar fargjaldaútreikningum og það hefur haft í för með sér að þau [fargjöldin] hafa sigið upp á við."

Þegar hann er spurður hvers vegna miðað sé við evrur á fargjöldum hér á landi svarar hann því til að það sé vegna þess að Icelandair selji stærstan hluta af farseðlum sínum í evrulöndum.

Guðjón segir enn fremur aðspurður að félagið finni fyrir því að Íslendingar ferðist minna en áður. „Það blasir við að frá hruninu hafa Íslendingar ferðast mun minna en áður," segir hann.