Búast má við því að formlegt kauptilboð fjárfestahóps undir forystu Skúla Mogensen og fjárfestingarfélags hans, Títan, í starfsemi MP banka hérlendis og í Litháen berist á næstunni. Þetta segir Skúli í samtali við Morgunblaðið og er að hans sögn verið að ganga frá lausum endum nú.

Að því loknu þarf hluthafafundur MP banka að samþykkja tilboðið sem og Fjármálaeftirlitið en kaupin eru háð samþykki þess. Skúli segir enga ástæðu til að ætla annað en að samþykki FME fáist.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því fyrir skömmu að hópur fjárfesta undir forystu Skúla og Samherja hyggðist leggja bankanum til 5 milljarða króna í nýtt hlutafé og taka yfir starfsemi hans á Íslandi og í Litháen. Síðan þá hefur Samherji dregið sig úr hópnum en Skúli hefur sagt að það hafi engin áhrif á fyrirætlanir hópsins. Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu eru Lífeyrissjóður verslunarmanna og TM auk VÍS á meðal annarra aðila.