Ferðaþjónustufyrirtæki landsins hafa mörg hver brugðið á það ráð að bjóða hin ýmsu tilboð fyrir sumarmánuðina. Óhætt er að fullyrða að tilboðin hrannist inn þessa stundina.

Sem kunnugt er varð ferðaþjónustan hér á landi fyrir hálfgerðu síldarhvarfi í kjölfar ferðatakmarkana sem leiddu af veirufaraldrinum. Á nánast einni nóttu þornuðu tekjulindir greinarinnar upp. Gífurlegum fjölda fólks hefur verið sagt upp störfum og þeir sem eftir standa eru flestir á hlutabótum.

Ríkisstjórnin hefur boðað að fyrirtækjum verði gert kleift að leggjast í híði án þess að þau drukkni í kröfubréfum á meðan. Þá stefna stjórnvöld einnig að því að gefa landsmönnum gjafabréf sem hægt verður á leysa út á gististöðum landsins.

Nýverið fór í loftið vefsíðan styrkjumisland.is en þar gefst fólki á að kaupa 15 þúsund króna gjafabréf í gistingu fyrir tvo. Hægt er að nýta téð bréf á þeim stöðum sem bjóða þjónustu sína fram á vefnum og munu þeir ekki geta rukkað meira fyrir gistinguna. Verkefnið er á vegum hugbúnaðarfyrirtækisins Godo og hafa hundruðir rekstraraðila skráð þjónustu sína á vefinn, stórir sem smáir.

Samkvæmt upplýsingum frá Godo er um að ræða óhagnaðardrifið átak til að efla innanlandsferðamennsku næstu 12 mánuðina. Allur ágóði, utan lítils umsýslugjalds, renni til rekstraraðilanna.

Stærri aðilar hafa einnig boðið fram tilboð. Inn á vef Íslandshótela er til að mynda hægt að kaupa gjafabréf sem gildir í gistingu í tíu nætur á einhverjum, einu eða fleiri, af hótelum keðjunnar. Verðið er tæpar 100 þúsund krónur. Þá bjóða KEA Hótel upp á tilboð á bæði Hótel Borg og Hótel KEA og í Húsafelli hefur Hótel Húsafell sett saman pakka fyrir þá sem vilja kíkja þangað.

Rétt er að geta þess að talningin er fjarri því að vera tæmandi og í raun gripið niður af handahófi í það sem er í boði enda ekki vinnandi vegur að gera öllum tilboðum skil. Ljóst er að kapp er lagt á að fá landann til að ferðast sem mest innanlands í sumar.